GÖGN Á PDF

Prentsíðurnar þurfa að vera miðjusettar í pdf-skjalinu og í stökum síðum en ekki opnum (spread). Pdf-skjalið má ekki innihalda aðra liti en þá sem eiga að prentast. Passa skal að svart letur sé ekki í öllum litum (registration color). Undir 100% SVARTA fleti er hæfilegt að setja t.d. 40% CYAN, 30% MAGENTA og 30% YELLOW til að fá svarta litinn vel svartan. Verkefni sem unnin eru ofan í stansateikningar er best að skila á pdf formi með teikningunni inná. Gæta verður þess vel að teikningin sé í vel auðkenndum sérlit og að allar línur hennar séu með „overprinti“ og skilji ekki eftir „hvít för“ þegar henni er sleppt í útprentun. Nauðsynlegt er að fara vandlega yfir pdf-skjalið áður en það er sent til okkar.

Frágangur skjala

Prenttækni tekur við verkefnum á pdf-skráarsniði til prentunar. Skil á pdf formi eykur öryggi og hraðar vinnslu. Nauðsynlegt er að láta allar myndir og grunna sem eiga að ná út í skurð blæða a.m.k. 3 mm út fyrir skorna stærð. Einnig þarf allur texti og önnur prentun sem ekki má skerast af vera a.m.k. 3 mm fyrir innan skurð. Prentsíðurnar þurfa að vera miðjusettar í pdf-skjalinu og í stökum síðum en ekki opnum (spread). Pdf-skjalið má ekki innihalda aðra liti en þá sem eiga að prentast. Passa skal að svart letur sé ekki í öllum litum (registration color). Yfirfarið skjalið vel áður en því er skilað til okkar.

 

Litastillingar og prófílar

Við styðjumst við litastillingar frá Prenttæknistofnun þ.e. frá Móra-hópnum, sem eru miklir áhugamenn um tæknimál í prentiðnaði og hafa reynt að koma á aðgengilegum stillingum í Acrobat- og ICC- prófílum. Ekki eru sérstakir litaprófílar í prentsmiðjunni og ástæður fyrir því eru meðal annars þær að þá þyrfti að útbúa litaprófíl fyrir hverja prentvél og jafnvel hverja pappírstegund. Sá aðili sem forvinnur verkið veit oft ekki fyrr en á síðustu stundu á hvaða vél á að vinna og því er einfaldast og öruggast að nýta fyrirliggjandi prófíla. Sjá pdf og litastillingar hér

Eftirfylgni prentverks

Viðskiptavinur fær alltaf góða próförk eða fullkomna fyrirmynd í raunstærð áður en verkið er prentað. Prentsmiðjan vinnur með RGB vinnuflæðis-prófíla sem cmyk-ar prentskrár sjálfkrafa. Þegar prentað er á náttúrulegan pappír (svo sem Munken, Scandia eða sambærilegar tegundir) þá er gott að létta myndir lítillega í forvinnslunni. Þessi pappír er gjarnan grófari og drekkur þar af leiðandi mikinn prentlit í sig. Forvinnslan mælir með því að viðskiptavinir noti leturgerðir í Open Type, True Type. Þetta tryggir örugg gæði og minnkar líkurnar á því að texti fari á flakk.